Samtal um Heidegger og Sartre

Heidegger and Modern Existentialism
Frá BBC sjónvarpsröðinni Men of Ideas 1978 í umsjón Bryan Magee.

William Barrett og Bryan Magee ræða heimspeki Martin Heidegger´s og Jean-Paul Sartres. Hægt er að lesa samræðurnar í þýðingu Gunnars Ragnarssonar hér.

Lykilatriðið í hugsun Heideggers er fólgið í þeirri skoðun að veran sjálf hafi fallið í gleymsku. Fólk hefur smám saman glatað hæfninni til að undrast um veruna og spyrja spurningarinnar „hvað er að vera?“, eða „af hverju er eitthvað en ekki bara ekki neitt?“ Eftir því sem við fjarlægjumst veruna, eftir því sem gleymskan verður dýpri, fjarlægjumst við þennan uppruna með þeim afleiðingum að við týnum okkur í gegnum samlögun við fjöldann. Maðurinn sjálfur, engu síður en náttúran, endar sem hráefni í þjónustu risavaxinna tækni-, peninga- og efnahagskerfa, og verður um leið helsta framleiðsluafurðin sem vinnur að framgangi þeirra.

Martin Heidegger var þýskur heimspekingur og af mörgum talinn einn áhrifamesti og merkasti heimspekingur 20. aldar. Þekktasta rit Heideggers er Vera og tími sem kom út árið 1927. Heidegger er álitinn mikilvægur hugsuður í fyrirbærafræði, tilvistarspeki, afbyggingu og túlkunarfræði. Hann reyndi að beina vestrænni heimspeki frá frumspekilegum og þekkingarfræðilegum spurningum í áttina að verufræðilegum spurningum.

William Barrett var prófessor í heimspeki við New York háskóla frá 1950 til 1979. Auk bókarinnar Irrational Man, sem fjallar um tilvistarstefnuna, skrifaði Barrett m.a. The Illusion of Technique: A Search for Meaning in a Technological Civilization og Death of the Soul: From Descartes to the Computer. Barrett var undir miklum áhrifum af heimspeki Friedrichs Nietzsche, Sørens Kierkegaard og Martins Heidegger.

Bryan Magee er enskur heimspekingur, rithöfundur og þáttastjórnandi sem er einka lagið að útlista torskilin hugtök og flóknar kenningar heimspekinar á skýru og aðgengilegu máli. Magee hefur skrifað fjölda bóka þar sem hann kynnir fyrir almennum lesendum heimspekikenningar þekktra heimspekinga. Eitt rita Magees, Miklir heimspekingar – Inngangur að vestrænni heimspeki kom út á íslensku árið 2002 í þýðingu Gunnars Ragnarssonar.