Breytt ímynd um manninn

Ríkjandi gildismat og breytt ímynd um manninn

Hér er fjallað um mikilvægi ráðandi gildismats fyrir þjóðfélagslega þróun, hvernig núverandi mannímynd iðn- og haghyggjunnar varð til og hvort viðmiðaskipti (paradigm shift) kunni að vera möguleg.

Árið 1974 gerði hópur vísindamanna við Stanford rannsóknastofnunina (Stanford Research Institute) í Kaliforníu ýtarlega rannsókn á hugsanlegum þróunarmöguleikum mannkynsins. Rannsóknarhópurinn komst að þeirri niðurstöðu að einkum tvenns konar samfélög væru líklegust til að þróast í framtíðinni. Hið fyrra er það sem þeir nefna ,,vinalegur fasismi“ eða ,,tamið samfélag, sem væri stjórnað af sviplausum stríðs-, velferðar-, iðnaðar-, fjölmiðla-, lögregluskrifstofubáknum með tæknifræðilegu hugmyndakerfi“. Slíku kerfi er stjórnað af fjármálafyrirtækum og forstjórastétt stórfyrirtækja undir merkjum lýðræðis í samvinnu við atvinnustjórnmálamenn, fjölmiðlastamsteypur og ágengan afþreyingariðnað.

Önnur möguleg þróunarleið er að kæmi til, það sem Thomas Kuhn nefndi,,viðmiðaskipti“ (paradigm shift), þ.e. róttæk og víðfem grundvallarbreyting á því hvernig borgaranir skynja sjálfa sig, samfélagið, náttúruna og þeim markmiðum sem þeir setja sér. Samfélag sem horfið hefur frá lífsgildum neysluþjóðfélagsins og byggir á öðrum forsendum. Sú leið felur í sér lífvænlega framtíð, að mati vísindamannanna, og samsvarar meiri háttar byltingu á vitund og hugarfari einstaklinga, sem og efnahags- og stjórnmálakerfi þjóða. Stanfordhópurinn telur að þetta sé eina æskilega leiðin fyrir mannkynið, en viðurkennir jafnframt að erfitt geti reynst að leysa úr læðingi slík viðmiðaskipti eftir áætlun eða með fyrirframgerðum hætti.

Hér eru valdir kaflar úr skýrslu rannsóknarhópsins Changing Images of Man. Fjallað er um mikilvægi ráðandi gildismats fyrir þjóðfélagslega þróun, hvernig núverandi mannímynd iðn- og haghyggjunnar varð til og hverjar séu helstu og afdrifaríkustu forsendur hennar. Að lokum er vikið að þeim eiginleikum sem ný mannímynd þarf að hafa til að bera og möguleikunum fyrir því að nýtt gildismat verði leitt til öndvegis. O.W. Markley og Willis Harman er helstu höfundar skýrslunnar. Aðrir sem unnu að gerð hennar voru: Joseph Campell, Dwayne Elgin, Arthur Hastings, Floyd Matson, Brendan O’Reagan og Leslie Schneider.

Skúli Magnússon þýddi og endursagði.

Ímynd mannsins hefir feiknmiklu hlutverki að gegna í hverju menningarsamfélagi. Það er vegna þess að einmitt hún liggur til grundvallar því hvernig samfélögin móta stofnanir sínar, hvernig háttað er menntun ungdómsins og stefnumarki því sem þjóðfélagið setur þegnum sínum að keppa að, hver sem starfsvettvangur þeirra annars kann að vera. Breytingar ímyndarinnar vekja sérstakan áhuga okkar, vegna þess að iðnaðarþjóðfélag nútímans stendur nú á þröskuldi svo gagngerra umskipta að þeim verður aðeins jafnað við umbrot þau sem urðu þegar iðnbyltingin ruddi miðöldum af stalli.

Skilgreining mannímyndar

Við munum brúka hugtakið ,,mannímynd“ eða ,,ímynd um manninn“ (image of man) til að gefa til kynna heildarskoðun á manninum sem tegund; uppruna hans, eðli, hæfileikum og sérstæðileika, tengslum hans við aðrar lífverur og stöðu hans í alheiminum. Viss hópur eða samfélag manna, pólitískur flokkur, kirkjudeild eða takmarkað menningarsamfélag, getur aðhyllzt ímynd sem er einkar fullmótuð, samkvæm og ákveðin. Slík ímynd tekur ákveðna afstöðu til spurninga eins og hvort manneðlið sé fremur gott eða illt, hvort einstaklingurinn hefir frjálsan vilja eða hvort athafnir hans eru ákvarðaðar af ytri aðstæðum, hvort samkeppni eða samvinna má sín meira í manneðlinu, hvort maðurinn er fremur andlegs eða líkamlegs eðlis, hvort konur og karlar skuli jöfn og fleira í svipuðum dúr. Ímyndin fjallar bæði um hvað maðurinn er og einnig hvað hann ætti að vera.

Árið 1972 spáðu vísindamenn við Hudson-rannsóknastofnunina að efnishyggja (neyslu-og nautnahyggjan) myndi eiga sín stöðugt meira í framtíðinni. Menn myndu leggja æ meira upp úr hagkvæmni, efnalegum gæðum o.s.frv., en vanmeta andleg gæði að sama skapi. Vitsmunum og orku yrði stöðugt meira beint að því félagslega, pólitíska og hagræna; einnig umsköpun og gjörnýtingu náttúruauðlindanna. Vaxandi erfiðleikar yrðu á öðrum sviðum mannlegs lífs – í trúarlífi, á tilfinningasviðinu og í samskiptum. Allar þessar breytingar myndu ná vaxandi útbreiðslu um allan heim og breytingarnar yrðu einnig með æ meiri hraða.

Í flestöllum þjóðfélögum er ríkjandi ákveðin ímynd um manninn sem kveður m.a. á um félagslegt eðli hans. En hin ýmsu þjóðfélög kunna að vera á algjörlega öndverðum meið hvað þetta varðar. Hópi-Indíánarnir – svo dæmi sé tekið álíta að samvinna sé snar þáttur í eðli mannsins, þar eð langflestir aðrir þjóðflokkar Ameríku (nútímans) líta hinsvegar svo á að samkeppnin megi sín miklu meira. Samkvæmt ,,amerískri” lífsskoðun er fyrirmyndareinstaklingurinn borinn með samkeppnisandann í brjóstinu. Og að sjálfsögðu fella konur jafnt sem karlar hegðun sína að þessari ímynd.

Ef fyrirmyndin skal skara fram úr, skjóta samborgurunum ref fyrir rass, vera ,,duglegur að koma sér áfram”, þá eru börnin alin upp í þeim anda og hvött til að duga sem bezt; leikir eru byggðir á samkeppni, kappleikir haldnir og sigurvegarinn verðlaunaður. Aðalhvati athafna manna skal vera sá að reyna stöðugt að skara fram úr. Samfélagið staðfestir þannig ímynd sína – gerir hana að veruleika. Það sama gildir að sjálfsögðu um hvaða aðra drætti í ímynd mannsins sem vera skal. (Lesendum skal tekinn vari við að blanda ekki saman hugtakinu ,,ímynd” og ,,ímyndun”! Aths. þýð.).

Drottnandi mannímynd hefir áhrif á menntakerfið og þau markmið sem þjóðfélagið setur því, hvernig verðmætum er skipt, hvaða afstöðu samfélagið tekur til velferðamála þegnanna og hvaða þarfir það telur brýnastar.

Ímyndin um manninn er þannig það sem á þýzku er nefnt Gestalt-hugmynd. Um er að ræða heildræna hugmynd er mannkynið varðar, mannfólkið jafnt sem einstaklinga og félagsverur, tengsl þess og afstöður gagnvart því sjálfu, öðrum einstaklingum sem mannfélaginu í heild – og – alheimi. Ímyndin býr yfir mörgum viðhorfum, hún er í mörgum lögum, rík af mótsögnum og þverstæðum – eins og manneskjan sjálf – en skal engu að síður skilin í einu samhengi, skoðuð heildrænt.

Samt sem áður fer ekki hjá því að sérhver ímynd verður að velja og hafna, bæði hvað varðar hvaða fleti hún lítur á – fjallar um, svo og hvaða eiginleika hún dregur fram. Sumar ímyndir eru þröngar og sést yfir fjölmarga möguleika. Aðrar eru víðfeðmari miklu og taka fleira til umfjöllunar. En hvernig sem því er annars farið – hlýtur sérhver ímynd að velja úr þá eiginleika sem hún metur kosti eða galla, vill efla eða útrýma, þá sem hún dáir eða forsmáir.

Oftastnær eru einstaklingarnir aðeins að mjög takmörkuðu leyti sér meðvitandi um ímyndina – það sama gildir um samfélögin sem heild. Sumir gera sér þó grein fyrir ímynd sinni og skynja og skilja heiminn meðvitað með hennar hjálp og beita henni er þeir þurfa að taka ákvarðanir.1 Hjá langflestum er ímyndin um manninn að mestu leyti dulvituð. Þá fyrst, þegar menn gera sér grein fyrir hinum duldu afstöðum sínum og hugmyndum, er um fullmótaða ímynd að ræða. Fyrst þá er mögulegt að taka hana til vendilegrar yfirvegunar, þá fyrst hægt að vega hana og meta – meðtaka eða hafna eftir atvikum.

Ímyndin og stefnumörkun í félagsmálum

Þjóðfélög geta verið algjörlega á öndverðum meiði hvað gildismat varðar. Hópi-Indíánarnir – svo dæmi sé tekið álíta að samvinna sé snar þáttur í eðli mannsins, á meðan aðrar vestrænar þjóðir líta almennt svo á að samkeppnin megi sín miklu meira. Öll pólitísk vandamál varða í reynd meginspurningar varðandi eðli mannsins og viðfangsefni hans.

Á þessum blöðum mun tilraun gerð til að kanna ,,ímyndina um manninn“ eins og hana er að finna í samtímanum. Þá ímynd sem er mótandi fyrir menningu nútímans, sem og menningarstefnur þær sem drýgstan þátt hafa átt í að skapa nefnda ímynd. Enginn getur gert sér grein fyrir öllum þeim möguleikum sem blunda hið innra með manninum.

Hugmyndir okkar um ,,mannlegt eðli“ eru takmörkunum háðar og laga sig eftir fordómum okkar. Hugmyndir þær sem við gerum okkur um mannkynið endurspegla fræði þau sem við erum í nánustu tengslum við. Kemur þar til skjalanna vísindaleg þekking, goðsagnir, meðteknar, samfélagslegar hugmyndir og áhrif stofnana þeirra sem fyrir eru eða í mótun.

Allar stefnuákvarðanir – jafnt einstaklinga sem stjórnvalda – endurspegla um leið og þær grundvallast á einhverri vissri hugmynd um manninn og stöðu hans í tilverunni.

Drottnandi mannímynd hefir áhrif á menntakerfið og þau markmið sem þjóðfélagið setur því, hvernig verðmætum er skipt (milli snauðra og ríkra), hvaða afstöðu samfélagið tekur til velferðamála þegnanna, hvaða þarfir það telur brýnastar og ýmislegt fleira í svipuðum dúr. Við getum að vísu ekki sagt nákvæmlega til um hvernig eða í hve miklum mæli ímyndin ákvarðar þessi atriði. Það er einmitt af þessum sökum sem táknrænar dæmisögur, mýtur (frumsagnir, goðsagnir), allegóríur (líkingasagnir) og kenningar eru nauðsynlegar og nytsamlegar; því í öllum þessum fyrirbærum brýzt fram viðleitni í þá veru að koma ímyndinni á framfæri og tjá hana. Öll pólitísk vandamál varða í reynd meginspurningar varðandi eðli mannsins og viðfangsefni hans:

  • Ef við lítum þannig á að mannkynið sé aðgreint frá náttúrunni og upp yfir hana hafið (kóróna sköpunarverksins), þá verður sú siðfræði rétt og eðlileg að mannkynið gjörnýti náttúruna samkvæmt eigin geðþótta.
  • Ef við lítum hinsvegar þannig á að mannkynið sé órofa þáttur náttúrunnar, þá rennir það viðhorf styrkum stoðum undir sjónarmið vistfræðinnar.
  • Ef við lítum á mannveruna (t.d. í læknisfræði, arkitektúr eða í atvinnumálum) sem lifandi maskínur skrúfaðar saman úr hinum einstöku líffærum, þá eru mikil líkindi fyrir því að samfélagið afræki hinar andlegri hliðar manneðlisins.
  • Ef við á hinn bóginn lítum á manninn sem andlega veru ekki síður en líkamlega, þá er sennilegra að samfélagið vanræki fremur hinar efnahagslegu forsendur fyrir hagsæld manna (eins og almenna heilsugæzlu, atvinnumálefni og húsnæðismál).
  • Ef við lítum þannig á að mannleg náttúra sé fullmótuð og óhagganleg, þá hlýtur það að vera viðfangsefni okkar að laga okkur sjálf ásamt félagslegum stofnunum að þeirri náttúru.
  • Ef við hinsvegar lítum þannig á að mannlegt eðli sé stöðugt í mótun, þá hlýtur viðfangsefnið að vera það að skilja eðli þeirrar þróunar og móta félagsstofnanir þannig að þær stuðli að sem æskilegastri þróun.

Ímynd í nútíma þjóðfélagi

Duldar ímyndir okkar eru afarmikilvægar að því leyti að þær veita mjög mikilvæga innsýn í raunveruleika þann sem við lifum og hrærumst í. Samt sem áður er ekki heppilegt að við gefum þeim alltof mikinn gaum meðan hagur okkar er sæmilega tryggur. Samt verður að viðurkenna að fjölmargir þættir í ímynd nútímans eru háskalega óljósir og sem mistri huldir.

Engin pláneta fær staðizt til lengdar þegar svo er komið að helmingur íbúanna lifir í ánauð meðan hinn helmingurinn nýtur óskoraðs frelsis; annar helmingurinn sokkinn í volæði og eymd, meðan hinn helmingurinn kemst ekki yfir að ryðja borð allsnægtanna.

Ákveðin ímynd getur auðveldað vissa þróun eða þróunarskeið samfélagsins. En þegar þessu stigi er einu sinni náð verður hin sama ímynd þröskuldur í vegi frekari þróunar og skapar fleiri vandamál en hún leysir. Torveldustu úrlausnarefni gömlu þjóðfélaganna stöfuðu af náttúruhamförum eða slysum – eins og t.d. farsóttum, hungursneyð og flóðum sem tæknilegur vanmáttur átti veigamikla sök á; en meginvandkvæði nútímans eru af allt öðrum toga spunnin. Vandkvæði nútímans stafa af nýrri, óvæntri tækni sem menn hafa ekki á valdi sínu, þeim miklu möguleikum sem hafa opnast fyrir því að umskapa hið náttúrlega umhverfi, okkur sjálf; samfara félagslegum vanmætti til að beita hinum tvíbentu möguleikum öllum til heilla og á sem skynsamlegastan hátt.

Vísindi, tækni og efnalegar framfarir hafa skilað okkur langt áleiðis að því marki að hægt verði að fullnægja öllum óskum um líkamlegt öryggi, efnaleg þægindi og fullkomna heilsugæzlu. En eins og tafla 1 vitnar um þá hefir þessi árangur í mjög mörgum tilfellum skapað ný og enn flóknari vandamál sem einmitt stafa af því að ,,árangurinn“ hefir orðið alltof ,,góður“ – ef svo einkennilega má til orða taka. Komin eru nú upp vandamál sem raunverulega eru óleysanleg innan ramma ríkjandi gildismats – ímyndin er úrelt.

Aukin almenn heilzugæzla – svo dæmi sé tekið – veldur auknum fólksfjölda, sem síðan margfaldar umfang allra annarra vandamála, eins og matvæladreifingar, þurrðar auðlinda auk skipulagslegra vandkvæða. Hið háþróaða, margbrotna tækniþjóðfélag er að sama skapi viðkvæmt og auðsæranlegt. Ef til vill er nú svo alvarlega komið málum að hinn mikli aragrúi félagslegra vandamála sem herja á nútímann ógna beinlínis siðmenningu okkar.2

Tafla I: Dæmi um margskonar ,,árangur“ og þau vandamál sem af honum leiða á öld tækni og iðnvæðingar

,,Árangur“

  • Lækkuð dánartala barna og fullorðinna.
  •  

  • Hröð þróun á sviði vísinda og tækni.
  •  
     

  • Vélar leysa mannshöndina af hólmi.
  • Framfarir í samgöngum, flutningum og fjarskiptum.
  •  
     
     

  • Framleiðslukerfið verður stöðugt afkastameira.
  •  
     

  • Auðlegð og efnahagslegur vöxtur.
  •  

  • Frumþörfum (nauðþurftum) manna fullnægt
  •  

  • Menn hafa fleiri kosta völ.
  •  
     
     

  • Aukin auðsæld ríkra þjóða. Óhóflegur auður safnast fyrir á fáum stöðum.

Ef ,,árangurinn” verður of ,,góður”

  • Offjölgun, þéttbýli, vandamál hinna öldruðu.
  •  

  • Útrýmingarhætta af völdum kjarna- og sýklavopna. Ókostir sérhæfingar. Einkalífi stefnt í hættu (hlerunartæki og tölvutækni).
  • Atvinnuleysi vex með síauknum hraða.
  • Aukin mengun á landi, í lofti og á sjó. Kæfandi magn upplýsinga safnast fyrir. Hætta á að hin viðkvæmu þjóðfélög fái skell ef eitthvað fer úrskeiðis. Röskun á líffræðilegum ,,rytma” mannsins.
  • Algeng störf verða ,,ómanneskjuleg”.
  •  
     
     

  • Aukin neyzla á hvert nef sem leiðir bæði til aukinnar mengunar og þess að auðlindir ganga til þurrðar.
  • Heimtufrekja fer vaxandi. Uppreisnir gegn tilgangslausum störfum.
  •  
     

  • Ófyrirsjáanlegar og geigvænlegar afleiðingar af völdum tækninnar. Stjórnun fer úr böndunum, menn missa öll tök á tækninni.
  • Aukið bil milli þeirra þjóða sem ,,hafa” og hinna sem ,,hafa ekki”. Örvænting fyrir á gagnvart þeirri hættu að kröfugerð snauðra leiði til byltinga og styrjalda. ,,Botnlaus fátækt” landlæg á sumum stöðum.

Þegar ímynd ,,leiðir“ félagslega þróun má taka þannig til orða, að hún hafi í sér fólgið spásagnargildi. Polak orðaði þetta þannig að ímyndin væri gædd segulmætti.3 Eftir því sem þjóðfélagið kemst nær því marki, sem ímyndin setti því, því meiri samhljóman verður milli ímyndar, félagsgerðar og einstaklinganna. Nú reynir á fyrirheit það sem ímyndin gaf. Þá getur komið að því – eins og í ævintýrunum – að þróun þjóðfélagins fari fram úr þeim markmiðum sem sett voru við upphaf vegferðar. Stefnumörkun sem grundvölluð er á úreltri ímynd verður þá að sama skapi röng og leiðir til hrörnunar eða kreppu. Þegar svo er komið er óhjákvæmilegt að ímyndin breytist.4

Engin merki gefa enn til kynna að úr muni rætast og vandamálin muni ekki halda áfram að hrannast upp með sívaxandi hraða meðan áfram er haldið að hlíta leiðsögn sömu ímyndar og sama gildismats og verið hefur um skeið. Þeir Khan og Bruce-Briggs frá Hudson-stofnuninni hafa dregið saman atriði þau sem þeir einkum telja einkenna núverandi þróun. Meðal annarra eru þessi:

  1. Efnishyggjan (neyslu-og nautnahyggjan) má sín stöðugt meira. Menn leggja æ meira upp úr hagkvæmni, efnalegum gæðum o.s.frv., en vanmeta andleg gæði að sama skapi.
  2. Skrifstýring og myndun borgaralegrar yfirstéttar, forstjóra og annarra slíkra.
  3. Efnahagslegt og pólitískt vald þjappast saman meir en verið hefir.
  4. Stöðugt hrúgast upp meira og meira magn vísindalegrar og tæknilegrar þekkingar.
  5. Tæknilegar rannsóknir, framfarir, frumkvæði og breytingar hvers konar komast æ meira í hendur stofnana, en einstaklingurinn má sín að sama skapi minna.
  6. Hernaðarmátturinn fer stöðugt vaxandi.
  7. Heimurinn í heild gerist æ vestrænni, iðnvæddari og ,,nútímalegri“.
  8. Allsnægtir auðugra þjóða og lengri frítími.
  9. Vaxandi myndun borga og útborga sem lyktar með myndun samhangandi borgflæma og risaborga.
  10. Æ færri vinna að framleiðslugreinum og framleiðslustörfum. Framleiðsluþrepin verða fleiri, framleiðsluferlið flóknara. Hlutfallslega fleiri vinna á þeim þrepum sem lengst eru frá sjálfri framleiðslunni.
  11. Ólæsi verður fátíðara. Aukin skólaganga, er leiðir til einskonar ,,menntunariðnaðar“, samfara vaxandi veldi og áhrifum hinna skólagengnu (svokallaðra ,,menntamanna“).
  12. Vitsmunum og orku stöðugt meira beint að því félagslega, pólitíska og hagræna; einnig umsköpun og gjörnýtingu náttúruauðlindanna. Vaxandi erfiðleikar á öðrum sviðum mannlegs lífs – í trúarlífi, á tilfinningasviðinu og í samskiptum, tjáningu o.fl.
  13. Allar þessar breytingar ná vaxandi útbreiðslu um allan heim.
  14. Breytingarnar verða einnig með æ meiri hraða.4

Ef þróunin verður eins og þarna er spáð, megum við fastlega gera ráð fyrir því að félagskreppur skjóti upp æ tíðar, hljóti meiri útbreiðslu og verði stöðugt torleystari.

Hin raunvísindalega afstaða skipar myndlist, hljómlist, skáldskap og trúarbrögðum á lægri bekk, gerir allt slíkt að hornrekum þjóðfélagsins. Hvernig skal þá farið að því að finna tilgang í allsnægtaþjóðfélaginu með lífi mannsins, þegar hinum æðri viðfangsefnum mannsandans hefir verið stjakað til hliðar svo þau hindri ekki framsókn enn meiri auðsældar – auðsældar sem þjónar engum tilgangi nema enn meiri hagvexti?

Samt er ekki með öllu öruggt að þjóðfélag framtíðarinnar fari hér eftir – a.m.k. ekki að öllu leyti. Ljóst er að mannkyninu hefir til skamms tíma fjölgað löturhægt.5 Áhrif þess á landslag og náttúru hafa lengst af verið smávægileg. Menn lifðu í dreifðum samfélögum og í náinni snertingu við jörðina – þannig að starfsemi eins ættflokks hafði sáralítil áhrif á lífsskilyrði nágrannahópanna. En á allra síðustu tímum hafa þjóðfélögin orðið miklu flóknari, samtengdari og sérhæfing vaxið. Framleiðsla, dreifing lífsgæðanna og þjónusta hverskonar hefir orðið miklu háðari því að gangverkið hnattrænt séð starfi eðlilega og bresti hvergi. Félagskerfi mannanna hlýtur að byggja á gagnkvæmu trausti, innra samkomulagi, stjórnun og samvinnu; en ekki á óhagganlegum ,,náttúrulögmálum“.

Þess vegna eru samfélög sem byggja á samskiptum og verslun miklu fallvaltari hinum þar sem náttúrlegt hagkerfi má sín mikils.

Þjóðfélög þau sem nú eru við lýði eru sérstaklega viðkvæm fyrir hverskonar áföllum, fyrir styrjaldarrekstri, gegn kreppum, ógnarstjórnum og grunnfærnislegum eða vanhugsuðum tilraunum til félagslegra ,,umbóta“ eða fyrir byltingum.

Línuritið túlkar tvö gjörólík skeið mannkynssögunnar

Jonas Salk hefir dregið upp línurit til glöggvunar á því breytingaferli sem mannkynið fylgir á vegferð sinni6 (sjá línuritið hér til vinstri). Hugsum okkur að allri sögu mannkyns – liðinni sem ókominni – sé skipt í tvennt: Tímabil A og B. Á hinu fyrra skeiði er tilvist manna að langmestu leyti komin undir framtaki og dugnaði einstaklinganna – hvers og eins. Þá ríkir sú regla að þeir hæfustu lifa áfram en hinir heltast úr lestinni, og samkeppnin um lífsgæðin gagnvart öðrum tegundum er í algleymingi. Á síðara skeiðinu sem

taka mun til allrar ófyrirsjáanlegrar framtíðar (skeið B) hindra og/eða takmarka stjórnvöld þá starfsemi einstaklinga og hópa sem leiða myndi til spillingar umhverfis og sóun náttúruauðlinda. Á þessu síðara skeiði er því velferð mannkyns meira komin undir hátterni tegundarinnar í heild – hvaða stefnu hún tekur – heldur en athöfnum eða framtaki einstaklinganna; samvinna mikilvægari en samkeppni, áherzla á að hinir greindustu lifi fremur en þeir líkamlega hæfustu.

Við verðum að bera spjótin að enn nýjum orustuvelli – frá hinum tæknilega og efnahagslega starfsvettvangi – að nýjum framvígstöðvum þar sem maðurinn berst fyrir að uppgötva sjálfan sig á nýjan leik.

Ef til vill er ekki raunhæft að gera ráð fyrir að t.d. Bandaríkin eða eitthvert annað auðugt ríki muni af fúsum og frjálsum vilja takmarka auðlindanotkun sína og draga úr neyzlu lífsgæða og deila síðan allsnægtum með hinum velmegandi þjóðum. En það væri ekki óraunhæft að horfa fram hjá þeirri staðreynd að fyrr en síðar hljótum við öll að standa frammi fyrir þessu vali. Íbúafjöldi Bandaríkjanna er aðeins um 6% af íbúafjölda jarðarinnar allrar, samt brúka þeir til eigin þarfa um helminginn af öllum auðlindum hennar. Flest þróunarlöndin stefna að sama stuðli lífsgæða og Bandaríkjamenn hafa náð – þótt meiri hluti íbúa þessara sömu landa sé enn vannærður og ólæs.

Lester Pearson – fyrrum forsætisráðherra Kanada – lét svo einu sinni ummælt:

Engin pláneta fær staðizt til lengdar þegar svo er komið að helmingur íbúanna lifir í ánauð meðan hinn helmingurinn nýtur óskoraðs frelsis; annar helmingurinn sokkinn í volæði og eymd, meðan hinn helmingurinn kemst ekki yfir að ryðja borð allsnægtanna – ofalinn og dillað í lystisemdum … Slíkar andstæður munu ganga frá siðgæði okkar ekki síður en umhverfinu helsærðu.

Þótt allir vísindamenn séu ekki á einu máli um að svo gagnger umskipti séu framundan í ævi mannkyns, eru flestir sammála um að hinar ríku þjóðir standi nú frammi fyrir geigvænlegri kreppu. Með því móti að menn kryfji eðli vandans af fullri gjörhygli, hvernig á honum stendur og hvernig ráða megi á honum bót, getum við fyrst vænst batnandi framtíðar. Í þeirri veru að varpa ljósi á hvers vegna ímyndin gegnir lykilhlutverki í þeirri viðleitni að öðlast slíkan skilning, þá skal bent á fjórar tegundir af vandamálum:

  1. Frumvandamál sem eru hin eiginlegu viðfangsefni. Þetta eru þau vandamál sem athyglin beinist fyrst að; fjármagni og öðrum kröftum þjóðfélagsins er tiltölulega skjótt beint að lausn þeirra (miðað við hin vandamálin).
  2. Ferlisvandamál eru þau sem menn reka sig á við framkvæmd aðgerða og eru starfræns eðlis.
  3. Gildisvandamál koma fram við árekstra sem stafa af mismunandi gildismati fólks, áhugasviðum, vali milli kosta; varða áætlanir, hvaða verkefni telja beri brýnust.
  4. Hugvandamál stafa af erfiðleikum huglægs og hugmyndafræðilegs eðlis; hvernig við hugsum, notum orðin – í stuttu máli hvernig veruleikinn er skilinn og skýrður í hinum ýmsu menningarheildum – sem síðan hefir sín áhrif á það hvernig einstaklingarnir skynja umheiminn og hvernig þeir framkvæma verkefnin.7

Þessa fjóra meginflokka má einkenna með hugtökunum: (1) aðgerðir, (2) samskipti og ákvarðanir, (3) hugsjónir, markmið, (4) hugmyndir og hugsunarháttur.

Hve mikilvægt er að greina á milli þessara fjögurra flokka vandamála má ljóst vera, af þeirri staðreynd að flest sæmilega upplýst fólk er sama sinnis ef spurt er hvert sé megin- eða frumvandamál okkar tíma. Ágreiningur er mestur að því er tekur til hvernig framkvæmdunum skuli hagað, hverskonar aðgerðir muni reynast sigurstranglegastar. En tilvist bæði þriðja sem fjórða flokks vandamála hefir að lang mestu leyti farið fram hjá fólki. Með því að beina kastljósunum að einmitt þessum flokkum vandamála, vonumst við til að geta gert auðveldara að nálgast hin félagslegu vandamál, sem áður virtist naumast innan seilingar að hægt væri að leysa.

Hagvaxtarsinninn: þræll framleiðslulíkinga

Engin stofnun á Vesturlöndum hefir komizt hjá mótandi áhrifum hagstefnunnar: skólarnir, fjölskyldan, sveitarfélögin og borgirnar, kirkjan; allar þessar stofnanir hafa orðið nauðugar viljugar að aðlaga sig að þessu mótandi ofurveldi nútímans. Neyslu- og markaðshugsunin teygir arma sína inn í hverja stofnun og mótar fólkið sem þar vermir stólana fast í þeim kóngulóarvef sem hagspeki og tækni hafa ofið í sameiningu og halda öllum þráðum í sínum höndum.

Þarfir tækni og skipulagningar – ekki tilgangur né hugsjónir – ákvarða þróun iðnaðarþjóðfélagsins … Ég hlýt að hallast að þeirri skoðun að við séum þrælar, ekki aðeins hvað viðvíkur gerðum okkar, heldur einnig hvernig við hugsum – þrælar þeirra véla sem við höfum sjálfir smíðað til að þjóna okkur.8
– J. K. Galbraith

Tæknin … er orðin aðaldrifkraftur efnis- og efnahagslegra breytinga, þannig er hún sterkasti áhrifavaldur þjóðfélagsbreytinga.9
– R. J. Forbes

Ofangreindar tilvitnanir bera þeirri staðreynd vitni að tækni og hagspeki eru nú orðið mestir orsakavaldar félagsbreytinga, hafa mest mótandi áhrif á þjóðfélagsgrindina. Sannleikurinn er sá að iðnmenningin hefir orðið eitthvert hið öflugasta og jafnframt útbreiddasta félags- og menningarkerfi í gjörvallri mannkynssögunni. Engin stofnun á Vesturlöndum hefir komizt hjá mótandi áhrifum hagstefnunnar: skólarnir, fjölskyldan, sveitarfélögin og borgirnar, kirkjan; allar þessar stofnanir hafa orðið nauðugar viljugar að aðlaga sig að þessu mótandi ofurveldi nútímans.10

Iðnbylting nútímans tekur þannig til fleiri sviða en vélanna og markaðarins; hún teygir arma sína inn í hverja stofnun og þess fólks sem þar vermir stólana fast í þeim kóngulóarvef sem hagspeki og tækni hafa ofið í sameiningu og halda öllum þráðum í sínum höndum. Áhrif haghyggjunnar eru svo djúprist að við eigum torvelt með að gera okkur í hugarlund hverju sú mannímynd sem snýr við hagspekinni bakinu getur svipað til.

Upphaf mannímyndar haghyggjunnar

Iðnbyltingin gjörbreytti lífi íbúa Evrópu. Breytingin átti sér aðallega stað á nítjándu öldinni miðri. Hugtak eins og ,,framleiðsluþættir“ (land, vinna, fjármagn) svo dæmi sé tekið – hafði byltandi áhrif á hina vestrænu mannímynd. Nú var hætt að líta á manneskjur sem limi lifandi þjóðarlíkama, heldur sem starfskrafta nauðsynlega fyrir hið vélræna framleiðsluferli.

Sú afstaða að líta á fólk aðeins sem hlekki í framleiðslunni, gerði markaðstengslin algerlega ópersónuleg og neyddi almenning til að hlíta ákvörðunum verksmiðjueigendanna í einu og öllu. Kerfi þetta hlaut styrk af þeim hagrænu hugmyndum sem ruddu sér til rúms eftir daga kaupauðgisstefnunnar (,,mercantelismans“) eða hinni svokölluðu laissez-fair-hyggju sem mælti gegn hverskonar afskiptum ríkisvaldsins af efnahagslífinu.

Maðurinn fór að hugsa um sjálfan sig sem eitthvað alveg sérstakt fyrirbæri, eitthvað aðgreint frá náttúrunni. Rætur þessarar afstöðu má að nokkru rekja til hinnar gyðinglegu-kristnu hefðar. Samkvæmt þessu viðhorfi er Guði einkar annt um að maðurinn gjörnýti náttúruna purkunarlaust til sérþarfa sinna.

Ímynd þá sem þetta tímabil skapaði mætti einkenna með hugtakinu hagræn eða hagsinnuð mannímynd. Einkenni mannsins samkvæmt henni voru einkum þessi: Hann er útsmoginn (fær um að reikna út hvað honum sjálfum kemur bezt), vélrænn (hlekkur í framleiðslukeðjunni), einrænn og sjálfbjarga (axlar þá byrði að sjá sjálfum sér farborða) og loks hagrænt sinnaður (lætur aðeins stjórnast af hagnaðarvon).11

Gildismat það sem fram kom á endurreisnartímabilinu og nokkru síðar (á 15. og 16. öld) átti ásamt með efnahagslegum umbrotum iðnbyltingarinnar hlutdeild í því að leggja grundvöll að markaðskerfinu og ægivaldi verksmiðjuframleiðslunnar. Marga þætti í mannímynd þeirri sem er drottnandi á okkar dögum má rekja einmitt allt aftur til endurreisnartímabilsins. Eftirtalin atriði einkenna einkum gildismat þessarar ímyndar:

(1) Skynsemishyggja – Skynsemin var á 18. öld eða ,,upplýsingaöldinni“ sem svo var nefnd álitin skipa öndvegi, fremri öllum öðrum eiginleikum mannsins. Talið var að henni væri fært að uppgötva öll náttúrulögmálin, og þannig myndi hún tryggja endalausar framfarir mannkynsins. Ýmsir þættir ófust saman í myndvef skynsemishyggjunnar:

Í fyrsta lagi var opinberun og innblæstri hafnað sem uppsprettu þekkingar. Sannleikanum varð ekki aflað eftir trúarlegum leiðum; þvert á móti varð að afla hans með reynslu og tilraunum – athugunum á náttúrunni sjálfri. Í öðru lagi þá var álitið að fjandsamleg tengsl væru ríkjandi milli skynsemi og tilfinninga. Þannig var ruddur vegurinn fyrir hinn mikla áhuga nútímans á náttúrufyrirbærum einkum þeim sem mæla má og vega og fjalla um á stærðfræðilegan hátt. Að sama skapi settu niður önnur fyrirbæri sem ekki hlíta vélrænum lögmálum, og hin órökræna upplifun var bæld niður.12

Þessi bæling hins lífræna fór mjög samstiga vaxandi iðnvæðingu. Allt það sem telja mátti eða mæla hafði sérstakt notagildi fyrir iðnaðarheiminn, hitt sem órökrænna var hafði af engu slíku notagildi að státa.

(2) Einstaklingshyggja – Á fyrri öldum litu einstaklingarnir á sig sem þræði í einum samfelldum lifandi vef sem næði til alls hins náttúrlega og félagslega umhverfis.13 Tökum dæmi:

Samkvæmt skilningi Hellena voru borgríki þeirra ekki bara lögsagnarumdæmi eða fyrirkomulag háð ákveðnum lagafyrirmælum – heldur var ekki síður um að ræða ákveðinn lífsmáta. Sérhver þáttur hins daglega lífs var í nánum tengslum við borgríkið. Mikilvægi hvers einstaklings hlaut hann vegna og í gegnum þegnlega stöðu sína í borgríkinu. Þannig var litið á að sem borgara ætti alla tilvist sína undir borgríkinu og að hann jafnframt legði fram sinn skerf til velferðar borgríkisins. En ríkinu bar dýrðin.14

Á miðöldum var einnig uppi einskonar samvistunar ímynd um manninn. ,,Sérhver einstaklingur – þjónninn, presturinn, riddarinn – þekktu (og gerðu sér að góðu) tröppu þá þar sem þeim var skipað til sætis í hefðarstiga kirkju og lénsskipulags. Tilfinningum einstaklinganna var og markaður ákveðinn bás; félagsvenjur og trúar-eða helgisiðir reistu tilfinningum vissar skorður.“15 Með endurreisnartímabilinu og siðaskiptum hélt innreið sína trú á mátt og sjálfstæði einstaklingsins og virðing skapaðist fyrir rétti hans. Þannig varð til sú fullvissa að einstaklingurinn geti sjálfur yfirunnið vandamál sín og mótað líf sitt á eigin spýtur með því móti aðeins að fylgja rödd samvizkunnar.

(3) Veraldarhyggja – Þegar menn sneru sér frá heildarhyggju að einstaklingshyggju, þá beindist athyglin jafnframt að lífinu hér á jörðinni og því sem menn geta áorkað hér og nú, en frá þeirri umbun eða refsingu sem áður var talin bíða handan grafar. Menn sáu nú framtíðina í björtu ljósi. Ekki þurfti nú lengur að bíða hamingjunnar unz komið væri hinumegin – hana mátti finna í jarðneskri tilveru. Bjartsýni þessi var grundvölluð á þeirri trú að framtíðin yrði viðleitni einstaklinganna vilhöll.16 Sú afstaða svarar til trúarinnar á mátt vísindanna.

(4) Náttúrulögmál – Trúnni á upphaflegt, náttúrlegt jafnvægi í tilverunni óx mjög fiskur um hrygg. Að því er hagkerfinu viðkom, svaraði sú skoðun til þess að velferð þjóðarinnar væri bezt tryggð á þann hátt að hver einstaklingur fyrir sig keppti eftir sem mestum efnislegum gæðum.

Mótmælendatrúin – eins og hún varð í framkvæmd – hneigðist til að líta svo á að líf einstaklinganna hér á jörðinni gæfi vísbendingu um hvaða örlög biðu þeirra handan landamæra lífs og dauða. Iðni og veraldleg umsvif samfara því að sýna ytri merki heiðarleika, þótti vísbending í þá veru að viðkomandi væri útvalinn til trúarlegs lífernis. Þannig var hinn dugmikli kaupmaður í augum mótmælenda einnig Guðs-maður. Það var því af sem áður var að auðsöfnun þætti Guði vanþóknanleg. Verk og verðleikar – þetta tvennt – var lagt að jöfnu.

(5) Maðurinn sem meistari sköpunarverksins – Maðurinn fór að hugsa um sjálfan sig sem eitthvað alveg sérstakt fyrirbæri, eitthvað aðgreint frá náttúrunni og það væri ætlunarverk hans að sigra náttúruna. Rætur þessarar afstöðu má að nokkru rekja til hinnar gyðinglegu-kristnu hefðar.

Kristnin – sérstaklega hið vestræna form hennar leggur þyngri áherslu á svokallaða ,,mannhyggju“ (anthropocentric: þ.e. að maðurinn sé miðsvæðis, allt skuli um hann snúast, önnur gildi – Guð eða náttúran – minna metin) en nokkur trúarbrögð önnur. Kristnin … mótaði ekki aðeins tvíhyggju þá sem setur manninn upp gegn náttúrunni, Guði er einnig – samkvæmt þessu viðhorfi – einkar annt um að maðurinn gjörnýti náttúruna purkunarlaust til sérþarfa sinna.17

Iðnbyltingin færði mannkyninu uppí hendurnar tæknina sem til þurfti til að gera þessa fullnýtingu að veruleika. Ímyndin sem fyrir hendi var staðhæfði að rétturinn væri allur mannsins megin. Ímynd og tækni lögðust nú á sömu árina um að blóðmjólka Móður Jörð.

(6) Efnishyggja – Farið var að líta svo á að fullnæging efnalegra þarfa mannsins væri ekki aðeins nauðsynleg, heldur einnig æskilegt mark að keppa að. Áður fyrr hafði auðsöfnun verið litin hornauga – a.m.k. fræðilega séð – en nú var farið að hvetja til hennar. Kalvínisminn – eins og hann varð í framkvæmd – hneigðist til að líta svo á að líf einstaklinganna hér á jörðinni gæfi vísbendingu um hvaða örlög biðu þeirra handan landamæra lífs og dauða. Iðni og veraldleg umsvif samfara því að sýna ytri merki heiðarleika, þótti vísbending í þá veru að viðkomandi væri útvalinn til trúarlegs lífernis.

Þannig ,,var hinn dugmikli kaupmaður í augum kalvínistans einnig Guðs-maður. Það var því af sem áður var að auðsöfnun þætti Guði vanþóknanleg. Verk og verðleikar – þetta tvennt – var lagt að jöfnu. Það leið því ekki langur tími unz farið var að líta svo á að því meiri veraldlegum árangri sem einstaklingurinn næði því verðugri og betri væri hann andlega séð.“18 Enginn skyldi gera of mikið úr þætti siðfræði mótmælenda í mótun iðnaldar, ,,samt er það sláandi að undantekningarlaust sköruðu lönd þeirra fram úr öðrum í kapphlaupinu um efnahagsframfarir“.19

Allar þessar hugmyndir féllu hver að annarri sem hanzki að hönd. Sameiginlega lögðust þær allar á eitt um að skapa ímynd um ofurmennið sem búa skal yfir þrotlausri orku tíl að móta umhverfi sitt eftir eigin höfði og sérþörfum sínum. Woodruff fjallar um áhrif evrópskra hugmynda á önnur lönd og dregur síðan saman niðurstöður sínar:

Engin siðmenning önnur en hin evrópska hefur trúað á skipulagðar viðstöðulausar efnahagslegar framfarir mannkynsins í heild; engin siðmenning önnur hefir lagt svo mikla áherzlu á magn án tillits til gæða; engin siðmenning önnur hefir keppt svo þindarlaust að markmiði sem jafnharðan hörfar undan; enginn siðmenning önnur hefir með slíkum ástríðuþunga leitazt við að ryðja burt því sem er til að koma á hinu sem henni finnst að eigi að vera; engin siðmenning önnur hefir þekkt svo strjálar og stopular stundir friðar og samræmis.20

Hið gamla gildismat sem lá til grundvallar iðnþjóðfélaginu kvað ekki á um að í einstökum atriðum hvernig þjóðfélagið ætti að verða, en það lagði samt meginlínurnar, hornstein þess sem var að rísa. Það var traustur grundvöllur sem iðnveldi nútímans var reist á. En einnig núverandi efnahagskerfi verður að víkja fyrir hinu nýja. Því verður ríkjandi mannímynd með gildismati sínu og hugmyndakerfi að rýma fyrir því sem í vændum er, fyrir arftakanum, þeim sem öll þróun mála bíður óþreyjufull eftir.

Æðri þarfir kræla fyrst á sér þegar lægri þörfum hefir verið fullnægt. Það gefur augaleið að til feiknlegra átaka hlýtur að koma, ef mannímynd iðnhyggjunnar heldur áfram að stýra gjörðum manna, ímynd sem tekur fjandsamlega afstöðu til uppfyllingar þessara ,,nýrri“ þarfa.

Örbyrgð allsnægtanna

Það er komið að þeim tímamótum vestrænnar sögu að ríkjandi ímynd er orðin í algjöru misræmi við þjóðfélagsveruleikann. Vesturlandabúar hafa um langt skeið litið á meginþætti þessarar ímyndar sem sjálfgefinn hlut. Ímyndin varð til og mótaðist á tímum fátæktar og bjargarskorts. Því vaknar sú spurning hvort fátæktin er nú lengur svo almennt fyrirbæri (í löndum eins og t.d. Bandaríkjunum) að gildismat sem miðar einhliða að útrýmingu hennar eigi að vera allsráðandi um aldir alda. Taka verður fram að gildismat/ ímynd verður miklu fremur að dæma eftir því hvernig fólk hegðar sér, fremur en hinu hvað það sjálft hefir um hana að segja.

John Maynard Keynes sá fyrir hverskonar togstreita myndi skapast þegar þjóðfélagið næði tiltölulegri hagsæld, en þegnarnir myndu samt halda áfram að hegða sér eins og meðan þeir bjuggu við bjargarskortinn:

Framfærsluvandamál – baráttan fyrir því að halda líftórunni – hefir til þeirra tíma sem nú standa yfir, verið höfuðviðfangsefni og aðalúrlausnarefni mannkynsins … Af náttúrunnar hendi vorum við þannig úr garði gerð að við yrðum sem hæfust til að halda í tóruna, klóra í bakkann. Hvatir okkar og eðlisávísun eru við þetta miðaðar: fæðuöflunina. Þegar hin efnahagslegu vandamál hafa verið leyst, þá stendur mannkynið frammi fyrir þeim vanda að það hefir engan tilgang lengur að keppa að, meginviðfangi iðju þessa öld fram af öld hefir þá verið kippt burt. Þannig stendur maðurinn í fyrsta skipti sögu sinnar frammi fyrir sínu eina raunverulega og endanlegu vandamáli: Hvernig á hann að nota frelsi sitt og frítíma, þegar hann er loks laus undan brauðstritinu? Ég hygg að engin þjóð geti litið fram til tíma allsnægta og iðjuleysis án þess að fyllast örvæntingu. Of lengi höfum við verið þjálfuð til að strita en ekki til að njóta.21

Kenneth Keniston, sem er félagssálfræðingur að menntun orðaði þetta á þessa leið:

Þegar nú mannkynið hefir í augnmáli hið aldagamla markmið sitt að skapa almenna hagsæld, hlýtur að vakna sú spurning hvort aðferðir þær – tæknin og iðnvæðingin – hvort það gildismat sem vísað hefir leiðina að þessu marki – þjóðfélagi allsnægtanna – muni ekki ofvaxið að vísa leiðina áfram.22

Óþarfi ætti að vera að taka fram að þetta má alls ekki skilja svo að örbyrgð sé ekki lengur alvarlegt vandamál í Bandaríkjunum. Spurningin er hinsvegar sú hvort sú afstaða að halda áfram að ríghalda sér í fátæktarhugmyndina muni nokkuð stuðla að því fólk rífi sig upp úr volæðinu. Í ýmsu tilliti eru aðgerðir þær sem vænlegastar eru til að vinna bug á fátæktinni (þ.e. jöfnun tekna og uppskipting gnægtanna) mjög áþekkar þeim sem beita þarf til að leysa úr vandamálum allsnægtanna. Lausn annars þessara tveggja viðfangsefna auðveldar því fremur lausn hins viðfangsefnisins en hitt.

Þeir sem búa við allsnægtir, en hallast samt sem áður að fátæktar-ímyndinni, hljóta að gera það fremur af sálrænum en efnalegum ástæðum. Easterlin ræðir um þessa ævarandi fátækt í greininni Does Money Buy Happiness? (Geta peningar veitt okkur hamingju?):

Hver einstaklingur virðist starfa samkvæmt þeirri forsendu að meiri peningar muni gera hann hamingjusamari. Afli hann meiri peninga án þess að tekjur annarra aukist að sama skapi, má segja að hagsæld hans hafi vaxið. En nú stefna allir að þessu sama marki og almenn hagsæld fer vaxandi, þannig að enginn er raunverulega nokkuð betur á vegi staddur. Kynslóðum saman halda einstaklingarnir áfram að vega sama saltið, en enginn virðist samt gera sér grein fyrir tilgangsleysi þess blindingjaleiks sem þeir eru þátttakendur í.23

Það er blekking að menn geti keypt sér ,,hamingju“. ,,Fjarlægt markmið sem hopar undan jafnhratt og eftir því er sótt.“24

Þrátt fyrir ,,árangur“ þann sem menn hafa náð á því sviði að búa til nýjar sálrænar ,,nauðþurftir“, þá er samt ástæða til að ætla að þessar ,,þarfir“ muni ekki verða varanlegt félagslegt fyrirbæri. Í einn stað stöndum við fyrr en síðar frammi fyrir því að auðlindir jarðarinnar eru uppurnar. Hvað varðar bæði matvæli og orku þá blasa endalokin þegar við. Í annan stað þá hefir önnur tegund örbirgðar en hin efnahagslega – þ.e. andleg, einstaklingsbundin eða félagsleg – ávallt fylgt í plógfar efnalegra allsnægta.

Etzioni bendir á að þegar gömul markmið ganga sér til húðar, án þess að eitthvað nýtt komi í staðinn, þá færist lífsnautnastefnan, sú sem mjög hefir sótt í sig veðrið á ofanverðri iðnöld, öll í ásmegin.25 Mannlegum þörfum er raðað í einskonar forgangsstiga. Æðri þarfir kræla þá fyrst á sér þegar hinum lægri þörfum (nauðþurftum) hefir verið fullnægt.26 Þá bólar jafnharðan á nýjum þörfum – eins og fyrir félagsskap, ást, vináttu, viðurkenningu o.s.frv. Það gefur því augaleið að til feiknlegra átaka hlýtur að koma, ef margumtöluð mannímynd iðnhyggjunnar heldur áfram að stýra gjörðum manna, ímynd sem tekur fjandsamlega afstöðu til uppfyllingar þessara ,,nýrri“ þarfa, ímynd sem þegar er komin fram úr þeim markmiðum sem sett voru er ýtt var frá landi.

Ef við leggjum ,,vaxtar-siðfræðina“ til grundvallar og jafnframt mælum vöxtinn með ,,hörðum“ magntölum, þá gefum við þeirri tilhneigingu undir fótinn að efla allt það sem mælt verður með tölum: verg þjóðarframleiðsla, atvinnuframboð, lengd skólagöngu, bílaframleiðslan o.s.frv. Þótt taka megi nokkurt mið af slíkum hagtölum, gefur það augaleið að þessi aðferð hlýtur að valda því að mönnum sjáist yfir annarskonar og huglægara mat – eins og t.d. fagurfræðilegt, umhverfislegt, félags- og tilfinningalegs eðlis. Auk þess gefa slíkar mælingar falska öryggiskennd, vegna þess að sneitt er hjá því sem mestu varðar: vöxtur til hvers, fyrir hvað?

Gjá milli markmiða og veruleika

Innan hvers þjóðfélags eru að verki ákveðnar forsendur sem menn móta hegðun sína eftir, enda þótt þeir geri sér ekki ljósa grein fyrir því. Vera kann að þessar forsendur hafi aldrei verið formaðar sem ákveðnar reglur; en bæði hegðun einstaklinga sem heildarstefna þjóðfélaganna hlítir þeim jafnt fyrir það. (Þessu mætti kannski líkja við málfræðireglur tungumálanna. Börn læra málið og þar með að beygja sig undir reglur málsins án þess að þau læri nokkru sinni framsetningu reglnanna. Aths. þýð.). Hér er birtur listi af slíkum ,,óskráðum lögum“.

Fyrsta forsendan: Hugtakið framfarir er látið jafngilda hagvexti – og framfarir teljast skilyrðislaust eitthvað gott og æskilegt. Samt er það nú viðurkennt að verg eða brúttó mæling vaxtar – eins og t.d. ,,verg þjóðarframleiðsla“ (heildarframleiðsla alls þjóðarbúsins samkvæmt söluverði hennar innan og utan landa; ,,vergur“ merkir ,,óhreinn“, brúttó. Aths. þýð.) segi síður en svo alla söguna um hagsæld þjóðfélagsins. Til dæmis að taka þá fer mengun að jafnaði vaxandi með aukinni vergri þjóðarframleiðslu.

Spurningin vaknar þá hvað það er sem vex þegar allt kemur til alls. Er það félagsleg velferð eða er það kannski mengunin? Ef við lítum jafnt á alla gallana sem kostina sem eru óhjákvæmilegir fylgifiskar hins aflmikla hagkerfis, þá hljótum við að andmæla staðhæfingum eins og ,,því stærra (því meira) því betra“ eða ,,vöxtur er ákjósanlegur“. Ef slíkri hugmyndafræði verður fylgt, þá mun það leiða mannkynið beint fram á brún hengiflugsins.

Ef við nú hvorttveggja í senn leggjum ,,vaxtar-siðfræðina“ til grundvallar og jafnframt mælum vöxtinn með ,,hörðum“ magntölum, þá gefum við þeirri tilhneigingu undir fótinn að efla allt það sem mælt verður með tölum (og þá ekki hitt sem mælist ekki): verg þjóðarframleiðsla, atvinnuframboð, lengd skólagöngu, bílaframleiðslan o.s.frv. Þótt taka megi nokkurt mið af slíkum hagtölum, gefur það augaleið að þessi aðferð hlýtur að valda því að mönnum sjáist yfir annarskonar og huglægara mat – eins og t.d. fagurfræðilegt, umhverfislegt, félags- og tilfinningalegs eðlis. Afleiðingin verður sú að menn fara að halda að einmitt slíkir hlutir skipti þá sáralitlu máli. Auk þess gefur ,,hörð“ mæling eins og verg þjóðarframleiðsla falska öryggiskennd, vegna þess að sneitt er hjá því sem mestu varðar: vöxtur til hvers, fyrir hvað?

Þannig er nú komið fyrir iðnþjóðfélaginu að það er knúið áfram af feiknlegri orku, en hefir ekki bara hugmynd um hvert skuli halda. Það ræður yfir ljómandi möguleikum á að komast hvert sem vera skal, en hefir bara ekki nokkra hugmynd um í hvaða átt eigi að stefna.

Önnur forsendan: Hún er sú að til sé eitthvert óhagganlegt lögmál (,,náttúrulögmál“) sem kveði svo á að meðan einstaklingarnir keppi að efnalegum sérhagsmunum sínum, þá sé jafnframt og sjálfkrafa sameiginlegum hagsmunum alls almennings borgið. Sett fram á hagfræðilegan hátt, hljómar þessi staðhæfing þannig: Hagsmunir einstaklinga og þjóðar fara ævinlega saman. Þessi voru meginrök hinnar frjálslyndu efnahagsstefnu 19. aldar (,,laissez-fair: láta-það-eiga-sig-stefnunnar“) sem boðaði afskiptaleysi ríkisvaldsins af efnahagsmálum.

Ýmislegt annað má finna þessari skoðun til foráttu. Samkvæmt henni eru menn beinlínis hvattir til þess að vera sem eigingjarnastir. En ef þjóðfélagsgerðin hvetti til hins gagnstæða væri ekki borin von að menn yrðu miður eigingjarnir en ella. Forsendan er einungis að beinn (og fljóttekinn) gróði sé eini hvati mannlegrar iðju. Þegar einu sinni hefir verið sköpuð veröld þar sem samskipti einstaklinganna fara fram á markaðstorginu, þá veitir sú kenning að einstaklingarnir séu nú einu sinni svona gerðir frá náttúrunnar hendi þá allra beztu syndakvittun sem hugsast getur. Melvin Tumin hafnar þessari kennisetningu:

… maður getur með sanni sagt að þessi hugmyndafræði þjóni hagsmunum verzlunarinnar og leitist við að gera að almennri sambúðarregiu það sem viðskiptaheiminum kemur bezt. Þessi sambúðarregla hefir ekkert pláss fyrir ástúð eða tilfinningasemi. Viðskiptalífið gefur ekkert svigrúm fyrir manneskjuleg samskipti, heldur verðlaunar hinar and-félagslegustu tilhneigingar í eðli fólks og leitast þannig við að upphefja einmitt slíkar tilhneigingar sem hið eina og sanna hegðunarmynztur mannfólksins.27

Þessi hugmynd um mannlegt eðli er ekki aðeins drottnandi í viðskiptalífinu. Hún er einnig studd rökum hagfræðikenningar sem ber eilítinn keim þeirrar átjándualdar sálarfræði – ekkert geti knúið manninn áfram nema óttinn við refsingu og vonin um laun og umbun.28

Þriðja forsendan: Mannkynið sé aðgreint frá náttúrunni og hlutverk þess – meira að segja skylda – sé að yfirbuga hana. Maðurinn hefir um langan aldur orðið að beygja sig þolinmóður undir vald Móður Náttúru. Loks núna finnur hann til máttar síns. Honum finnst hann herra jarðar. En að sama skapi og menn ráðskast meira með náttúruna, eftir því hlýtur ábyrgð þeirra á lífríki jarðar í heild fara vaxandi.

Fjórða forsendan: Tæknilegir möguleikar, aukin tækifæri til að umskapa og breyta umhverfisþáttum -þá er mannfólkið ekki undanskilið, því einnig það er þáttur umhverfisins hljóti endilega að vera æskileg og góð þróun. Samhliða vaxandi tæknilegum mætti koma vaxandi kröfur um að þessum mætti eða möguleikum verði beitt. Þetta sjónarmið markast af nytsemishyggju gagnvart þekkingarleit: fyrst og fremst (eða aðeins) er aflað þeirrar þekkingar sem gefur fyrirheit um aukinn tæknilegan mátt. Hin ,,tæknilega krafa“ sú að öll sú tækni sem sé möguleg, sé ipso facto (leiðir af eðli máls) einnig æskileg og nauðsynleg – rekst nú orðið af og til á aðra kröfu sem nefna mætti ,,hina félagslegu kröfu“.

Í augum æ fleiri Vesturlandabúa er fatnaðurinn nú ekki fyrst og fremst til þess gerður að veita skjól og hlýju, heldur er litið á hann sem tæki til að undirstrika lífsmáta og leggja áherzlu á fjárhagsstöðu þess sem fötin ber.

Fimmta forsendan: Hún er sú að mennirnir séu fyrst og fremst vitrænar verur; tilfinningarnar skuli bældar niður þar eð þær séu lægri eiginleikar manneðlisins – annars flokks. Þetta er skiljanleg afstaða frá sjónarmiði tækninnar: þroskun skilnings og rökhugsunar skuli örvuð, sem kemur iðnvæðingunni til góða. Þessi raunvísindalega afstaða skipar myndlist, hljómlist, skáldskap og trúarbrögðum á lægri bekk, gerir allt slíkt að hornrekum þjóðfélagsins.

Hvernig skal þá farið að því að finna tilgang í allsnægtaþjóðfélaginu með lífi mannsins, þegar hinum æðri viðfangsefnum mannsandans hefir verið stjakað til hliðar svo þau hindri ekki framsókn enn meiri auðsældar (auðsæld sem þjónar engum tilgangi nema enn meiri hagvexti)? Við verðum að gera okkur grein fyrir hinum niðurlægjandi og afsiðandi áhrifum sem bæling annarra eiginleika en hinna vitrænu hlýtur að hafa í för með sér.

Sjötta forsendan: Árangur einstaklinganna í lífinu skuli einhliða dæma samkvæmt efnahag þeirra og stöðu. Biblían tekur afstöðu gegn slíku gildismati þegar hún spyr hvað það gagni manni að eignast allan heiminn en glata sálu sinni. Þrátt fyrir þessa afstöðu Biblíunnar er nú svo komið að sálinni er ofaukið í heimi sem er heltekinn eftirsókn eftir stöðugri en tilgangslausri auðsöfnun. ,,Beinasta aðferðin til að dæma um mannvirðingar er að raða mönnum samkvæmt neyzlu þeirra. Sá sem kemur mestu í lóg hlýtur að vera fremstur meðal vor.“29 Tímaritið Fortune upplýsir að neyzlumarkaður vestrænna ríkja einkennist m.a. af eftirtöldum atriðum:

Harðnandi kröfugerð neytenda eftir vörum sem geti borið vitni um sérleika þeirra (að þeir skeri sig að einhverju leyti úr öllum öðrum), vörur til þess ætlaðar að neytendanum sé gert auðveldara að vekja öfund annarra … Í augum æ fleiri Bandaríkjamanna er fatnaðurinn nú ekki fyrst og fremst til þess gerður að veita skjól og hlýju, heldur er litið á hann sem tæki til að undirstrika lífsmáta, leggja áherzlu á ,,persónuleika“ og fjárhagsstöðu þess sem fötin ber.30

Sjöunda forsendan: Auður veitir mönnum aukið frelsi. Við höfum tekið þá skoðun að erfðum að einstaklingarnir geti þá fyrst staðið fyrir sínu, þegar þeir vinna sér inn nóga peninga, sem skapi þeim frelsi til að veita sér það sem þeir helzt kjósa. Gallinn við þessa hugmynd er sá að koma ekki auga á neinn árekstur milli þess að afla fjárins og frelsisins að velja þá vöru sem neytandanum lízt helzt. En þegar betur er að gáð kemur í ljós að sú starfsemi sem til þess þarf að afla fjár, fækkar valkostum fjáraflamannsins félagslega, sálrænt, pólitískt og efnahagslega séð. Fjáraflamaðurinn er bundinn fjáröflunaraðferð sinni og markaðinum.

Margaret Mead hefur bent á eftirfarandi: Kenni maður fólki sem vant er að ,,klæðast“ stráum og trjáberki að ganga í venjulegum fötum, þá verður jafnframt að sjá þessu sama fólki fyrir þvottahúsum, sápu, saumavélum og klæðaskápum. Sú athöfn að ganga í fötum er þáttur í margslunginni siðmenningu og sem m.a. hefir í för með sér að sjá verður fyrir geymslu, þvotti, viðgerðum og fl.31

Einstaklingurinn er staddur einn á berangri og er ekki lengur í kallfæri við umhverfi sitt. Í stað heillandi dulúðar er komið innantómt borgarlíf.

Gerðu þér bara í hugarlund allar þær menningarlegu hömlur og takmarkanir í þjóðfélögum þeim sem við búum í með öllu sínu vöru- og þjónustuframboði. Það sem raunverulega felst í auðlegðar-,,heimspekinni“ er þetta: Ef þú hefur næga peninga til að uppfylla þarfir þínar þá gefa peningarnir þér frelsi til að láta þig ,,skorta“ enn fleiri hluti og meiri þjónustu. Forsendan hrynur svo til grunna þegar tekizt hefir að skapa ,,þörf“ sem ekki verður fullnægt sómasamlega með efnalegum hlutum.

Þannig er nú komið fyrir iðnþjóðfélaginu að það er knúið áfram af feiknlegri orku, en hefir ekki bara hugmynd um hvert skuli halda. Það ræður yfir ljómandi möguleikum á að komast hvert sem vera skal, en hefir bara ekki nokkra hugmynd um í hvaða átt eigi að stefna. Af hvað ástæðum sem það kann að vera, þá hefir hrun hinnar gömlu ímyndar ekki leitt til leitar að nýrri ímynd að sama skapi og það hefir skotið mönnum skelk í bringu.

Hin verðandi ímynd dregur fram hina yfirskilvitlegu og andlegu hlið mannsins, sem vísindin – kröfuhafar alls sannleikans – hafa svo lengi látið sem ekki væri til. Samkvæmt niðurstöðum nútímavísinda eru hinar margvíslegustu tegundir yfirskilvitlegrar reynslu – allt frá fjarhrifum, hugsanaflutningi og skyggni að mystískri einingarvitund, yfirleitt algengir eiginleikar, en ekki – eins og áður var haldið – sérhæfileikar fárra útvaldra. Þessum eiginleikum mannshugans hefir hingað til ekki verið gefinn neinn umtalsverður gaumur, vegna þess að oftast nær bælir félagsumhverfið þessa blundandi hæfileika þegar á barnsaldri – samfélagið snýst öndvert gegn þeim.

Jarteikn nýrra hugmynda

En öll sagan hefir enn ekki verið sögð. Eðli vandamála þjóðfélaga nútímans virðist benda í þá átt að mannkynið standi nú á krossgötum: endalok iðnaldar séu nú í sjónmáli; og mannímynd sú sem ríkt hefir tvær síðustu aldirnar eigi ekki lengur við á öld þeirri sem við tekur. Samt sem áður bendir fátt í þá veru að þessi þörf ein sér – fyrir aðra nýja ímynd – nægi til þess að umbreytt ímynd hasli sér völl. Né heldur getum við gert því skóna að hægt verði að ryðja slíkri ímynd braut samkvæmt einhverri fyrirfram gerðri áætlun, stefnt rakleitt að markinu.

Hinsvegar er á það að líta, að hún virðist þegar verið byrjuð að vígklæðast sumum þeim eiginleikum sem ætla verður að séu henni nauðsynlegir, hvort sem þá þróun ber fremur að þakka happadrjúgum forsendum, aðstæðum, eða hvort um einhverja ómeðvitaða framvindu kann að vera að ræða.

Hin verðandi ímynd dregur fram hina yfirskilvitlegu (transcendental) og andlegu hlið mannsins, sem vísindin – kröfuhafar alls sannleikans – hafa svo lengi látið sem ekki væri til.

Hin nýja ímynd neitar ekki neinni af niðurstöðum vísindanna, fremur má segja að hún fari út fyrir landamæri þeirra. Minna má á kenningar skammtaeðlisfræðinnar um eðli ljóssins: tilraunir í nútímaeðlisfræði hafa sýnt að sama rafeindin getur farið samstundis gegnum tvö göt á sama fleti, bæði sem ögn og bylgjuhreyfing. Á sambærilegan hátt við það að vísindin kyngdu tveimur andstæðum varðandi eðli ljóssins, þá vill hin nýja ímynd gera ráð fyrir að tvær þverstæður geti búið hlið við hlið, báðar verið jafn mikilvægar: líkami/ andi, nauðung/ frjáls vilji, vísindi/ trúarbrögð.

Hin nýja ímynd tekur mið jafnt af hinni innri, huglægu veröld sem af hinni ytri, hlutlægu. Um sé að ræða tvö jafnvíg svið mannlegrar reynslu og þekkingin geti náð til þeirra beggja. Hún endurvekur – á vissan hátt – jafnvægið milli tilvistarhyggju (hins noumenala) miðaldanna – með þeirri áherzlu sem þá var á hugtökum og rökhyggju – og fyrirbrigðahyggju (hins phenomenala) iðnaldarinnar með áherzlu sinni á reynsluöflun.

Hin nýja ímynd tekur mið jafnt af hinni innri, huglægu veröld sem af hinni ytri, hlutlægu. Um sé að ræða tvö jafnvíg svið mannlegrar reynslu og þekkingin geti náð til þeirra beggja.

Hinn nýi trancendentalismi (þ.e. fjöldahreyfing sú sem nú leggur rækt við hverskonar yfirskilvitlega upplifun og andlegar iðkanir ýmiskonar) er ekki eina teiknið á lofti sem bendir til að breytt ímynd sé í vændum. Hefðum við ekki fleira til að dæma útfrá, þá gætum við reynt að vísa slíkum vísbendingum á bug sem einni þeirra trúarbylgna sem oft eru samferða breytingatímum og andlegum kreppuskeiðum. Hinsvegar verður hinn nýi áhugi vísindamanna á yfirskilvitlegum fyrirbærum ekki virtur að vettugi, né heldur fjölmargar sannfærandi niðurstöður rannsókna á ,,dulrænum“ fyrirbærum.

Dæmi um slíkar vísindalegar niðurstöður eru margskonar einkenni sem samfara eru innri, huglægri upplifun – eins og t.d. hraðar augnhreyfingar (samfara draumum), rafspennubreytingar húðarinnar, breytingar hinnar vefrænu spennu, raf- og segulmögnuð svið sem mælast umhverfis líkamann (ára, hjúpur), heilalínuritin (EEG) og ýmislegt fleira. Nýjum aðferðum er beitt til að kanna breytileika vitundarinnar. Allt hefir þetta borið álitlegan árangur. Það sem mestu máli skiptir er að vísindin hafa með þessu lagt blessun sína á kerfisbundnar rannsóknir og rannsóknaraðferðir á þeim sviðum mannlegrar reynslu – hinum torráðu djúpum sálarlífsins – sem aðeins trúarbrögð og hugvísindi hafa fjallað um fram að þessu.

Tilraunir í nútímaeðlisfræði hafa sýnt að sama rafeindin getur farið samstundis gegnum tvö göt á sama fleti, bæði sem ögn og bylgjuhreyfing. Á sambærilegan hátt, þá vill hin nýja ímynd gera ráð fyrir að tvær þverstæður geti verið jafn mikilvægar: líkami/ andi, nauðung/ frjáls vilji, vísindi/ trúarbrögð.

Enn gagngerri afleiðingar munu þær niðurstöður hafa að hinar margvíslegustu tegundir yfirskilvitlegrar reynslu – allt frá fjarhrifum, hugsanaflutningi og skyggni að hluthrifni (psychokinesis, en svo nefnist hæfileiki sá að geta hreyft hluti úr stað með hugareinbeitingu einni) og mystísk einingarvitund eru yfirleitt algengir eiginleikar, en ekki – eins og áður var haldið – sérhæfileikar fárra útvaldra. Þessum eiginleikum mannshugans hefir hingað til ekki verið gefinn neinn umtalsverður gaumur, vegna þess að oftast nær bælir félagsumhverfið þessa blundandi hæfileika þegar á barnsaldri – samfélagið snýst öndvert gegn þeim.

Enn mikilvægari en nokkru sinni hinar einstöku niðurstöður er sú mikla athygli sem þessum málefnum hefir þegar hlotnazt. Á sérhverju sviði sem mannlegt eðli hefir verið brotið til mergjar, blasir hvarvetna við tvíeðli þess. Mannkynið virðist hvorttveggja í senn: fjötrað hlekkjum efnisins, en einnig búið vængjum andans; hátterni þess líffræðilega ákvarðað, en einnig í sumu tilliti frjálst.

Við erum allir hver um sig hvorttveggja í senn aðgreindir einstaklingar, en einnig tengdir í eina samfellda heild. Við virðumst þannig gerðir að við setjum markið á hin æðstu siðferðileg verðmæti og keppum að því göfugasta sem hugurinn getur gert sér grein fyrir; en jafnframt erum við eigingjarnir og þráfaldlega mistekst okkur að lifa samkvæmt hinum háleitu markmiðum.

Hin nýja mannímynd og félagslegar breytingar

Tvær ástæður liggja því einkum til grundvallar …

Spurningar þær sem til umfjöllunar eru í þessari grein skipta veigamiklu máli. Ef greinarhöfundar fara ekki villur vegar, þá stendur mannkynið nú í dyrum félagsbyltingar sem eftir á að verða álíka afdrifarík og iðnbyltingin var á sínum tíma. Og samstiga þessari félagsbyltingu má vænta annarrar byltingar – þ.e. hugmyndafræðilegrar – og hún mun eiga eftir að hrista stoðirnar ámóta hressilega og Kópernikusarbyltingin gerði á sínum tíma.

Sagan gefur veikar vonir um að hægt verði að sigla lygnan sjó milli brota gegnum brimgarð hraðfara og gagngerra þjóðfélagsumbrota. Við getum ekki gert okkur vonir um að sleppa án ágjafar í því ólguróti af efnahagskreppum og félagslegri upplausn sem dynur á í heiminum með meiri þunga en nokkru sinni. Þegar slík aldahvörf verða hvað gildismat og hugmyndakerfi varðar, má í sannleika sagt búast við hreinni upplausn.

Hinum máttugu aflvélum iðnþjóðfélagsins verður þá snúið í aðra átt, svo hrikta mun í máttarstólpunum. Hinar ýmsu stofnanir og aðilar þjóðfélagsins munu bregðast við þessum breytingum mismunandi fljótt og á mismunandi vegu. Réttur skilningur á eðli væntanlegra breytinga er því feikn mikilvægur. Í þessum efnum er ógerningur að segja fyrir þróunina. Skoðanir okkar hljóta í veigamiklum atriðum að byggjast á almennum hugleiðingum og mati á því hvað virðist sennilegast. Þegar vankantar ríkjandi mannímyndar eru hafðir í huga má gera ráð fyrir að hin nýja ímynd um manninn muni:

  1. Boða altækan skilning á lífinu.
  2. Vistfræðileg sjónarmið, sem leggja áherslu á einingu mannkynsins.
  3. Sjálfsuppgötvun (self-realization) og einstaklingsþroska.
  4. Vera margmetandi, fjölþætt, stefna að heildun (integration) menningarinnar.
  5. Fela i sér jafnvægi og samhæfða uppfyllingu á þörfum (miða t.d. ekki bara við neysluþarfir og efnahagsöryggi).

Þótt útlínur hinna komandi ímyndar séu óljósar enn sem komið er, virðast þær þó fela í sér meiri áherzlu á samvinnu en samkeppni, vistfræðileg viðhorf í stað gjörnýtingar, sálræna og andlega viðleitni í stað þrotlausrar auðsöfnunar og að hlutverk innsæis-skilnings verði viðurkennt til jafns við rökrænan skilning. Þar eð hin komandi ímynd er í verulegum atriðum í andstöðu við hina gömlu iðnhyggjuímynd, þá er sennilegt að litið verði á hana sem fjandsamlega, sem ógnun við ,,hámenningu“ nútímans. Þess vegna kann svo að fara að einkennin sem benda til betri og heilbrigðari tíma, verði mistúlkuð sem yfirvofandi upplausn þjóðfélagsins. Svo erfiðar eru fæðingarhríðir hinnar nýju mannímyndar – nýrrar og gjörbreyttrar lífsafstöðu.

Lokaorð

Þótt útlínur hinna komandi ímyndar séu óljósar enn sem komið er, virðast þær þó fela í sér meiri áherzlu á samvinnu en samkeppni, vistfræðileg viðhorf í stað gjörnýtingar, sálræna og andlega viðleitni í stað þrotlausrar auðsöfnunar og að hlutverk innsæis-skilnings verði viðurkennt til jafns við rökrænan skilning.

Hugsanlega gætu tvennskonar ólíkar þjóðfélagsgerðir þróazt út frá nútímanum úr deiglu þeirrar spennu sem er ríkjandi milli iðnríkisins í öllu sínu veldi og þeirrar viðleitni að reyna að hemja þau feiknlegu öfl – reyna að brúa bilið milli ímyndar og veruleika. Í grófum dráttum má hugsa sér að viðbrögðin við því misræmi sem orðið er gætu orðið með tvennum hætti:

(1) Hið ,,tæknilega viðbragð“. Það myndi fela í sér (a) iðnmátturinn yrði ekki skertur, (b) hann héldist áfram undir tiltölulega veikri stjórn, (c) mannímynd iðnhyggjunnar sem væri enn langt að baki félagsveruleikanum, yrði að aðlaga sig nokkuð og breytast eftir þörfum iðnveldisins.

(2) Hið ,,manneskjulega“ viðbragð. Það myndi hinsvegar fela í sér (a) iðnveldið myndi annaðhvort sitja á strák sínum eða þjóðfélagið myndi sjálft taka í taumana, (b) fólkið myndi aftur ná valdi yfir þjóðfélagskerfinu (og undirkerfum þess), (c) ný manneskjuleg mannímynd myndi ryðja sér til rúms og vísa mannkyni inní nýtt skeið sögu þess. Iðnveldið liði undir lok.

Enda þótt einhverjum kunni að þykja þessi tvö, ólíku viðbrögð séu mörkuð einkar skýrum dráttum, þá er mannkynið allt um það statt í öngstræti sem ekki er auðvelt að rata út úr. Þar eð nútímamaðurinn og ímynd hans hefir mótazt eftir þeim aðstæðum sem ríkjandi eru við iðn- og borgmenningu, þá virðist vonlítið að reyna að breyta ímyndinni án þess jafnframt að umskapa það umhverfi mannsins sem ætlazt til þess af einstaklingnum að hann fylgi því hátternismynztri sem það mælir fyrir um.

Á hinn bóginn er álíka vonlítið að reyna að breyta hinu öfluga iðnveldi án hjástoðar í heppilegri mannímynd til að vísa leiðina til hins fyrirheitna lands. Ein leiðin er sú að reyna að gera hvorttveggja í senn. Önnur að láta skeika að sköpuðu; játast undir þróunarlögmál iðnveldisins – sumir myndu í sambandinu heldur tala um að líða fyrir þróunarlögmál þess.

Sú félagslega pressa sem einstaklingurinn er í, hefir skapað svo geigvænlega firringu, að maðurinn er meira að segja firrtur sjálfum sér. Hann er hræddur að eiga samræður við sjálfan sig.

Iðnveldið hefur ekki tekið við auðlegð sinni af silfurfati: þvert á móti. Samhliða iðnvæðingunni glataði hinn vestræni maður trúnni á alheimslega reglu – á forsjónina:

Nútímamaðurinn skynjar sjálfan sig ekki lengur sem gagnlegan hlekk þjóðfélagskeðjunnar, sem síðan er felld inn í tilgangsríkt heildaráform tilverunnar allrar eða þess sem kallað er forsjón.32

Ef við viðurkennum að tilvera einstaklinganna öðlist þá fyrst tilgang að samræmi sé milli afstöðu einstaklingsins til hans sjálfs (sjálfsins), til þjóðfélagsins og tilverunnar í heild; þá verður því ekki neitað að iðnöldin hefir verið skelfilega dýrkeypt, því hún hefir höggvið – í misríkum mæli samt – á öll þessi tengsl sem gefa lífinu tilgang. Einstaklingurinn er staddur einn á berangri og er ekki lengur í kallfæri við umhverfi sitt. Í stað heillandi dulúðar er komið innantómt borgarlíf. Sú félagslega pressa sem einstaklingurinn er í, hefir skapað svo geigvænlega firringu, að maðurinn er meira að segja firrtur sjálfum sér. Hann er hræddur að eiga samræður við sjálfan sig.

Þessi staðreynd gefur óvírætt til kynna að næsta verkefni hljóti að vera það að endurvekja samband mannverunnar við uppsprettur tilvistar hennar – að manninum auðnist á nýjan leik að bergja á því lífsins vatni sem veitir tilgang og gefur innihald. Framhald iðnaldar virðist ekki gefa miklar vonir um að svo geti orðið. Við verðum því að bera spjótin að enn nýjum orustuvelli – frá hinum tæknilega og efnahagslega starfsvettvangi – að nýjum framvígstöðvum þar sem maðurinn berst fyrir að uppgötva sjálfan sig á nýjan leik.

Heimildir
1. E. Hoffer, The True Believer. New York: Harper and Row, 1951.
2. J. R. Platt, ,,What We Must Do“, Science, 166. árg. nóvember 1969, bls. 1115-1121.
3. F. Polak, The Image of the Future, þýtt og endursamið af E. Boulding. San Francisco: Jossey-Bass, 1973. (Upphaflega í hollenskri útgáfu, 1951).
4. H. Kahn og A. Weiner, The year 2000. A Framework for Speculation on the Next Thirty-Three Years. New York: Macmillan, 1967; H. Kahn og B. Bruce Briggs, Things to Come, New York: Macmillan, 1972.
5. J. McHale, World Facts and Trends. New York: Macmillan, 1972.
6. J. Salk, The Survival of the Wisest. New York: Harper and Row, 1973.
7. Markley et al., 1971.
8. J. K. Gailbraith, The New Industrial State. Boston: Houghton Mifflin, 1967.
9. R. J. Forbes, The Conquest of Nature. New York: Praeger, 1968.
10. D. C. Miller og W. H. Form, Industrial Sociology. New York: Harper and Row, 1967.
11. C. Brinton et al. A History of Civilization: Volume II. Englewood Cliffs: Prentice Hall, Inc., 1955.
12. R. May, Psychology and fhe Human Dilemma. New York: Van Nostrand Reinhold, 1966, bls. 59.
13. A. O. Lovejoy, The Great Chain of Being. New York: Harper and Brothers, 1936.
14. I. H. Rima, Development of Economic Analysis. Homewood: R. D. Irwin, 1967.
15. May, áður getið, bls. 57.
16. R. L. Heilbroner, The Future as History. New York: Harper and Row, 1960, bls. 27.
17. L. White, ,,The Historic Roots of Our Ecologic Crisis“, Science, 155. árg. mars 1967, bls. 1205.
18. R. L. Heilbroner, The Economic Problem. Englewood Cliffs: Prentice Hall, 1968, bls. 60.
19. Sama rit.
20. W. Woodruff, Impact of Western Man. New York: St. Martins Press, 1967, bls. 16.
21. J. M. Keynes, ,,Economic Possibiliiies for Our Grandchildren“, í The Goal of Economic Growth, E.S. Phelps, rits. New Yok: Norton, 1969, bls. 210-211.
22. K. Keniston, The Uncommitted. New York: Harcourt, Brace and World, 1965, bls. 128.
23. R. Easterlin, ,,Does Money Buy Happiness?“ The Public Interest, No. 30, vetur, 1973, bls. 10.
24. Sama rit.
25. A. Etzioni, ,,The Search for Political Meaning“, The Center Magazine, mars/apríl, 1972, bls. 6.
26. A. Maslow, Toward a Psychology of Being. New York: Van Nostrand Reinold, 1962; C. Graves, ,,On the Theory of Value“, ritgerð, Union College, Schenectady, mars 1967.
27. M. Tumin, ,,Business as a Social System“, Behavioral Sci., 9. árg. 2. tbl., 1964, bls. 130.
28. Rima, áður getið.
29. A. Downs og R. Monsen, ,,Public Goods and Private Status“, Public Interest, No. 23, vor 1971, bls. 64.
30. C. E. Silberman, ,,Identity Crisis in the Consumer Markets“, Fortune, mars 1971.
31. P. E. Slater, The Pursuit of Loneliness. Boston: Beacon Press, 1970.
32. B. Luckmann, ,,The Small Life-Worlds of Modern Man“, Social Res., 37. árg. 4. tbl. vetur 1970, bls. 584.