Víðsjá ræðir við Hege Storhaug
„Það sem við sjáum núna í Vestur-Evrópu er ris alræðislegrar hugmyndafræði sem á rætur sínar í íslam.“
Þetta segir Norðmaðurinn Hege Storhaug, höfundur bókarinnar Þjóðaplágan íslam, sem nýlega kom út hér á landi í þýðingu Magnúsar Þórs Hafsteinssonar. Útgefandi er bókaútgáfan Tjáningarfrelsið.
Þjóðaplágan íslam vakti strax mikla athygli og hefur verið ofarlega á metsölulistum íslenskra bókaverslana.
Hege Storhaug segir að hún eigi ekki við trúarbrögðin í heild sinni. Tvær ólíkar hliðar séu á íslam sem hún rekur til tveggja ólíkra æviskeiða Múhameðs. Frá Medína hafi hann breitt út trúna með ofbeldi.
„Sú stefna sem hefur náð völdum í moskum súnní– og sjíta-múslima, og einnig náð fótfestu í Evrópu, er sú hin sama og varð til í Medína,“ segir Storhaug. Það sé alræðisstefna okkar tíma.
„Hin myrku öfl hafa sótt í sig veðrið og fengið aukin völd. Það sama hefur gerst hér í Vestur Evrópu og svarið við spurningunni hvers vegna þetta hefur gerst má finna í Teheran og byltingu Khomeinis 1979,“ segir Storhaug í þessu viðtali við útvarpsþáttinn Víðsjá.